Enski boltinn

Everton fékk bæði verðlaunin fyrir febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes, stjóri Everton.
David Moyes, stjóri Everton. Nordic Photos / Getty Images

Everton fékk tvö verðlaun þegar enska úrvalsdeildin gerði upp febrúarmánuð í dag. David Moyes var valinn besti stjóri mánaðarins og Phil Jagielka var valinn besti leikmaður mánaðarins.

Everton vann bæði Bolton og West Brom í febrúar auk þess að gera jafntefli við Newcastle á útivelli. Þetta var líka mjög góður bikarmánuður fyrir félagið því Everton sló þá bæði Liverpool og Aston Villa út úr ensku bikarkeppninni.

Phil Jagielka er varnarmaður og hjálpaði Everton við að halda hreinu í öllum deildarleikjum í febrúar. Hann lék einnig sinn fyrsta landsleik þegar England tapaði 0-2 fyrir Spáni.

Þetta er í fimmta sinn sem Moyes er kosinn besti stjóri mánaðarins. "Auðvitað er ég ánægður með að fá þessa viðurkenningu. Þessi verðlaun eru samt frekar viðurkenning fyrir leikmennina sem hafa skilað sínu starfi vel. Það er erfitt að ná þessum verðlaunum frá Sir Alex Ferguson þessa daganna svo að ég er stoltur af því að hafa tekist það," sagði Moyes.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×