Innlent

Segja skýrslu vistheimilisnefndar lögfræðilegan orðaleik

Vistheimilisnefndin skilaði áfangaskýrslu í vikunni. Myndin er frá því að nefndin skilaði svartri skýrslu um Breiðuvík.
Vistheimilisnefndin skilaði áfangaskýrslu í vikunni. Myndin er frá því að nefndin skilaði svartri skýrslu um Breiðuvík. Mynd/GVA

Fólk sem var vistað á Kumbaravogi í æsku er afar ósátt við þann hluta skýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um Kumbaravog. Þau vilja að þessi tiltekni hluti skýrslunnar verði endurskoðaður. Þau segja að játning manns hjá lögreglu um kynferðisbrot hafi verið dregin í efa í skýrslunni. Skýrslan er lögfræðilegur orðaleikur, að mati Maríu Halldórsdóttur.

María, Elvar Jakobsson og Erna Agnarsdóttir voru gestir í þætti Sigurjón M. Egilsson á Bylgjunni í morgun. Þau dvöldu öll á Kumbaravogi í æsku. Erna lengst eða í rúm tíu ár frá 1965 til 1975.

Hluti barna og unglinga á Kumbaravogi, Heyrnleysingjaskólanum og Bjargi þurftu að þola kynferðislegt ofbeldi eða áreiti og andlegt og líkamlegt ofbeldi á þessum stofnunum sem voru reknar af ríkinu. Þetta kom fram í skýrslu vistheimilisnefndar sem kynnt var í síðustu viku.

„Þessi skýrsla er framlenging á þeirri niðurlægingu sem við höfum orðið fyrir" sagði María. Sá hluti skýrslunnar þar sem segir að meiri líkur en minni séu á að börn hafi verið misnotuð á vistheimilinu sé lögfræðilegur orðaleikur. Fyrir liggi hjá lögreglu játning manns sem kom sem gestur á Kumbaravog og misnotaði drengi sem voru þar, þar á meðal Elvar.

Elvar, María og Erna eru óánægð með að ekki hafi verið tekið undir sjónarmið þeirra við gerð skýrslunnar. Auk þess hafi verið eðlilegra að skipta þeim hluta sem fjallar um Kumbaravog upp í nokkur tímabil. Þau ætla að óska eftir því að skýrslan verði endurskoðuð.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×