Íslenski boltinn

Kristján: Erum nálægt markmiðum okkar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Mynd/Víkurfréttir
Kristján Guðmundsson var sáttur með stigin þrjú sem Keflvíkingar fengu í hús í kvöld en sagði þó að leikur sinna manna hefði getað verið betri.

"Auðvitað er maður sáttur við sigur og hluta af leiknum, en það er þá það sem er að gerast á köflum í síðari hálfleik sem maður er ánægður með. Það er algjörlega óþolandi að fá á sig þessi mörk í lokin. Maður á eftir að fara betur yfir þetta en þetta er léleg varnarvinna hjá öllu liðinu, miðjan fellur of langt niður, vörnin fær lítið pláss og við þurfum að vera duglegri að hafa meira bil milli varnar og miðju," sagði Kristján í samtali við Vísi.

"Það er ekki hægt að segja að Þróttarar hafi komið okkur á óvart. Þeir spila aftarlega þó þeir vilji þrýsta á varnarlínuna okkar en maður veit að lið sem eru komin í svona stöðu eins og þeir eru í þau berjast eins og ljón," bætti Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur við.

Aðspurður hvort sigurinn hefði verið sanngjarn sagðist Kristján vera hættur að svara þeirri spurningu.

"Það eru ákveðnir menn búnir að segja að fótbolti sé aldrei sanngjarn sama hvernig fer og sama hvernig er spilað þannig að ég er hættur að svara spurningum um það hvort sigrar séu sanngjarnir. Liðið sem skorar fleiri mörk það vinnur og þannig er það," sagði Kristján.

Keflvíkingar enduðu í 2.sæti deildarinnar í fyrra en hópurinn hjá þeim breyttist töluvert í vetur. Kristján sagði þá vera nálægt markmiðum sínum, en Keflvíkingar fóru upp í 5.sætið með sigrinum í kvöld.

"Við erum mjög nálægt markmiðum okkar, flestum en ekki alveg öllum. Þetta er að nálgast að vera viðunandi," sagði Kristján að lokum og bætti við að meiðsli Símun Samuelsen væru líklega ekki alvarleg og að hann yrði klár í næsta leik gegn Grindvíkingum á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×