Fótbolti

Nancy öruggt með sæti í frönsku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Veigar Páll Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Anton

Það var ljóst eftir að næstsíðasta umferðin í frönsku úrvalsdeildinni fór fram í gær að Nancy mun spila áfram í deildinni á næstu leiktíð.

Nancy var nánast öruggt með sætið sitt en þrátt fyrir að liðið tapaði fyrir Marseille í gær, 2-1, á heimavelli sínum er nú ljóst að það er laust við falldrauginn.

Le Havre er löngu fallið úr deildinni og Nantes heldur í mjög litla von um að bjarga sér. Fallbaráttan stendur þess að utan á milli Sochaux, Le Mans, Caen og St. Etienne en ekkert þeirra liða mætast innbyrðis í lokaumferðinni.

Veigar Páll var í fyrsta sinn í leikmannahópi Nancy í rúma tvo mánuði í gær en hann hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu. Hann kom þó ekki við sögu í leiknum í gær.

Toppbaráttan í frönsku úrvalsdeildinni er enn óráðin en baráttan stendur á milli Bordeaux og Marseille sem bæði unnu leiki sína í gær.

Bordeaux stendur þó mun betur að vígi en liðið er með þriggja stiga forystu á Marseille fyrir lokaumferðina. Liðin eru þó með nánast jafnt markahlutfall og þarf því Bordeaux helst að ná í stig í lokaleik sínum gegn Caen á útivelli.

Sem fyrr segir er þó Caen í bullandi fallbaráttu og því gæti það reynst strembið verkefni fyrir meistaraefnin.

Marseille á heimaleik gegn Rennes sem er í sjötta sæti deildarinnar og er ekki nema tveimur stigum á eftir Toulouse og Paris Saint-Germain. Fjórða og fimmta sætið veita þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð og hefur því Rennes upp á heilmikið að spila í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×