Upp­gjörið: KA - Fram 2-0 | Sann­gjarn sigur heima­manna

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Hallgrímur Mar
Hallgrímur Mar Vísir/Ernir Eyjólfsson

KA tryggði sér dýrmæt þrjú stig með 2-0 sigri á móti Fram í 20. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Birgir Baldvinsson og Jóan Símun Edmundsson skoruðu mörk heimamanna í fyrri hálfleik og lögðu þar með grunninn að mikilvægum sigri.

Leikurinn fór hægt af stað og var heldur bragðdaufur framan af en það breyttist þegar fyrsta markið kom. Birnir Snær Ingason átti gott skot í slána og boltinn skoppaði út í teig. Þar var Birgir Baldvinsson vel staðsettur, hann tók boltann beint á bringuna og lét vaða í fjærhornið.

Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Jóan Símun Edmundsson forskot heimamanna með öðru marki. Fram átti í erfiðleikum með að brjóta niður KA liðið og Steinþór Már Auðunsson í marki heimamanna hafði lítið fyrir stafni. 

Það var meiri kraftur í liði Fram í seinni hálfleik og náðu þeir að halda boltanum ágætlega innan liðsins. Þrátt fyrir að vera meira með boltann skorti raunverulega hættu og náðu þeir ekki að ógna marki KA. Heimamenn tryggðu sér því verðskuldaðan 2-0 sigur.

KA lyfti sér með sigrinum á Fram úr 10. sæti upp í 6. sæti og eru nú með 26 stig. Baráttan um miðja töfluna er jöfn og aðeins örfá stig skilja liðin að.

Fram hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið og er nú komið niður í 8. sæti með 25 stig. Liðið hefur tapað síðustu þremur leikjum og gerði þrjú jafntefli þar á undan. Frammistaðan í kvöld var merki um að liðið glímir við vandamál í sóknarleiknum. Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, þarf að finna lausnir við því ef þeir ætla að berjast um pláss í efri hluta deildarinnar.

Atvik leiksins

Leikurinn var bragðdaufur framan af og lítið af spennandi atvikum fyrstu mínúturnar. Fyrra mark leiksins breytti þó öllu fyrir heimamenn, sem settu í fimmta gír og uppskáru í kjölfarið annað mark stuttu seinna.

Stjörnur og skúrkar

KA menn öruggir í dag og hefðu hæglega getað bætt við að minnsta kosti einu marki í viðbót.

Enginn sem bar neitt sérstaklega af hjá Fram í dag. Afar döpur frammistaða að mínu mati.

Dómarar

Twana Khalid Ahmed var á flautunni, með honum voru Guðmundur Ingi Bjarnason og Sveinn Ingi Sigurjónsson Waage á hliðarlínunum. Fín dómgæsla að mínu mati, ekkert atvik sem stóð upp úr og gott flæði hjá Twana.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira