Innlent

Afleiðingar kreppu ekki fullljósar

Afleiðingar efnhagsþrenginganna eru einungis að litlu leyti komnar í ljós gagnvart einstaklingum og fjölskyldum. Þetta kemur fram í skýrslu stýrihóps ríkisstjórnarinnar um áhrif bankahrunsins á heimilin. Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðaráætlun sína í velferðarmálum.

Aðgerðaráætlunin byggir á skýrslu velferðarvaktarinnar sem félagsmálaráðherra skipaði í febrúar. í skýrslunni eru lagðar til aðgerðir til að draga úr áhrifum kreppunnar á heimilin í landinu.

30 milljónir króna verða lagðar í sérstakan mótvægissjóð sem mun hafa það hlutverk að styrkja rannsóknir á sviði velferðarmála og átaksverkefni fyrir þá hópa sem verst hafa orðið úti.

Sérfræðingar verða fengnir til að fylgjast með félagslegum áhrifum bankahrunsins og þá verði komið í veg fyrir að aðgengi að velferðarþjónustu skerðist.

Bregðast á við fjárhagslegum vanda heimila meðal annars með greiðsluaðlögun og bættri stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti. Þá er ennfremur lagt til að boðið verði upp á greiðslujöfnun gengistryggðra lána.

Aðgerðirnar gera ráð fyrir að brugðist verið við vaxandi atvinnuleysi með hvers konar nýsköpun og að reynt verði að koma í veg fyrir félagslega einangrun atvinnulausra.

Skýrsluhöfundar telja að áhrif kreppunnar á einstaklinga séu aðeins að litlu leyti komnar fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×