Erlent

Átta stunda umsátur í Lahore

Reiði. Pakistanskir lögreglumenn taka einn árásarmannanna föstum tökum. MYND/AP
Reiði. Pakistanskir lögreglumenn taka einn árásarmannanna föstum tökum. MYND/AP

Hópur vígamanna réðst í gær með alvæpni inn í þjálfunarbúðir lögregluskóla í Pakistan og gengu þar berserksgang klukkustundum saman. Þeir hentu handsprengjum, tóku gísla og drápu að minnsta kosti átta lögreglumenn og þrjá óbreytta borgara áður en sérsveitarmönnum úr hernum tókst að yfirbuga þá.

Sex vígamenn voru handteknir en átta aðrir voru drepnir í skotbardaganum, sem stóð yfir í átta tíma. Lögregluskólinn er til húsa í útjaðri borgarinnar Lahore í austurhluta landsins.

Talsmenn héraðsyfirvalda sögðu um 90 lögreglumenn hafa særst. Sumir árásarmannanna hefðu klæðst lögreglubúningum.

Hin þaulskipulagða árás og það hvernig henni var fylgt eftir af miklu offorsi eykur enn á áhyggjur af þeirri hættu sem stafar af öfgaöflum í hinu kjarnorkuvígvædda Pakistan. Talsmaður héraðsyfirvalda staðfesti að sex árásarmenn hefðu verið handteknir. Af þeim átta úr þeirra hópi sem dóu hefðu tveir sprengt sig í loft upp. Enginn öfgahópur hafði í gær lýst yfir ábyrgð á árásinni. - aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×