Innlent

Tekist á um endurskoðaða fjárhagsáætlun

Frá borgarstjórn Reykjavíkur.
Frá borgarstjórn Reykjavíkur. MYND / Gunnar V. Andrésson
Borgarfulltrúar tókust á um endurskoðaða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 á aukafundi borgarstjórnar í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði að áætlanir virðist ætli að standa. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, gagnrýndi að minnihlutinn hafi ekki fengið aðgang að vinnugögnum við endurskoðun fjárhagsáætlunar.

Endurskoðun á fjárhagsáætlun 2009 hófst í byrjun janúar og var markmiðið að hagræða um rúmlega 2,4 milljarða. Í nýlegri greinargerð fjármálaskrifstofu er gert ráð fyrir að skera 1.126 milljónir niður í launaútgjöldum og 1.243 milljónir í öðrum kostnaði. Á þriðja þúsund starfsmanna tók þátt í vinnunni undir forystu starfshóps embættismanna.

Dagur sagði minnihlutinn standa við þau markmið sem borgarstjórn setti sér í aðgerðaráætlun í haust. Samkvæmt henni mun borgin standa vörð um grunnþjónstuna, atvinnustigið og störf borgarstarfsmanna og hækka ekki gjaldskrár.

Hanna Birna sagði Dag uppteknari af aukaatriðum frekar en aðalatriðum og hvatti hann til að lesa endurskoðaða fjárhagsáætlun og aðgerðaráætlunina sem hann hafi tekið þátt í að samþykja í haust. Hanna Birna fullyrti að Dagur og aðrir borgarfulltrúar hafi fengið öll þau gögn sem hafi legið fyrir. Hún sagði jafnframt að meirihlutinn bæri pólitíska ábyrgð á endurskoðaðri fjárhagsáætlun en ekki embættismenn.

Kreppan er látin bitna á börnunum í borginni, fullyrti Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna. Fram komi í máli hennar að heil kennslustund á dag verði tekin af grunnskólabörnum í 2. til 4. bekk. Svandís sagði að verið væri að skerða þjónustu við börn þegar að kennslustundum væri breytt í eitthvað annað.

Dagur sagði að Samfylkingin setti fyrirvara við þær gjaldskrárhækkanir sem væru í pípunum. Að auki sagði Dagur óskynsamlegt að skera niður í mannaflsfrekum framkvæmdum. Í andsvari Hönnu Birnu kom fram að í fyrirhuguðum aðhaldsgerðum muni engin störf tapast vegna hagræðingar í viðhaldi á húsnæði og öðrum eignum borgarinnar. Hún benti á að einungis væri um að ræða 6-10% af viðhaldsfé borgarinnar.

Óskar Bergsson, formaður borgararáðs, sagði að gagnrýni minnihlutans væri léttvæg. Hann sagði að það væri ekki nein óvissa um framkvæmd framkvæmdaáætlunar borgarinnar og að ómaklegt væri að halda öðru fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×