Innlent

Borgarahreyfingin sprettur úr búsáhaldabyltingunni

Frá blaðamannafundinum í gær. Þráinn heldur á stefnuskránni. Við hlið hans eru Jóhann, Birgitta, Baldvin, Þór og svo Valgeir. Hinum megin við Þráin sat Katrín. Fyrir aftan er kröfuspjaldið og kröfurnar fjórar, tvær eru óuppfylltar.
fréttablaðið/gva
Frá blaðamannafundinum í gær. Þráinn heldur á stefnuskránni. Við hlið hans eru Jóhann, Birgitta, Baldvin, Þór og svo Valgeir. Hinum megin við Þráin sat Katrín. Fyrir aftan er kröfuspjaldið og kröfurnar fjórar, tvær eru óuppfylltar. fréttablaðið/gva

 „Það er ekki hefð fyrir því að slökkviliðsmennirnir vinni með brennuvörgunum,“ sagði Þráinn Bertelsson, frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar. Hún efndi til blaðamannafundar á skrifstofu sinni að Laugavegi í gær þar sem stefnan og nokkrir helstu frambjóðendur voru kynntir.

Þráinn var þar að svara spurningum blaðamanna af hverju hreyfingin gæti ekki hugsað sér að starfa með Sjálfstæðisflokknum. En hvað er það sem hún ætlar sér að gera? „Þetta er breytingaframboð sem ætlar að gera ákveðnar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og þegar því er lokið munu alla vega einhverjir okkar kjósa að hverfa til starfa á öðrum vettvangi,“ sagði Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri og frambjóðandi.

Fyrir aftan frambjóðendur blasti við mótmælaspjald úr búsáhaldabyltingunni sem á voru letraðar fjórar kröfur. Ríkisstjórnin sem byltingin beindist gegn hefur „gefist upp“ og farið þannig að aðeins standa tvær kröfur eftir og út á þær gengur hreyfingin að sögn Þráins Bertelssonar frambjóðenda. Það er að segja „nýtt lýðveldi“ og „flokkstjórn niðurlögð“. Eins voru fleiri munir innanstokks sem notaðir höfðu verið í byltingunni. „Þetta eru vopnaleyfar úr búsáhaldabyltingunni,“ sagði Þráinn.

„Og Borgarahreyfingin er eiginlega póli-tískur líkami þeirrar byltingar og skilgetið afkvæmi þeirra krafna sem fólk setti fram í byltingunni. Í stuttu máli sagt þá stendur Borgarahreyfingin fyrst og fremst fyrir lýðræði og heiðarleika í stað spillingar og einræðis.“

Jóhann sagði að hreyfingin krefðist þess að ríkisstjórnin stæði við loforð sitt um að leggja fram frumvarp um persónukjör en allt bendi til að það loforð verði svikið.

Hann útskýrði hvernig hreyfingin stillir upp á lista sinn. „Fólk sækist eftir ákveðnu sæti, ef síðan fleiri en einn óska eftir sama sætinu er mælst til þess að þeir sem mætist þar geri út um þann ágreining sín í milli. Það hefur gengið mjög vel í Reykjavíkurkjördæmunum að búa þannig um hnútana að þeir sem sóttust eftir sætum hafi fengið þau eða þá að hlutum hafi verið hnikað til og allt í mesta bróðerni. Ef það hins vegar kemur upp einhver ágreiningur sem ekki er leysanlegur þá einfaldlega drögum við á milli frambjóðenda.“ Flokkurinn mun ekki kjósa sér leiðtoga eins og gert er í öðrum flokkum heldur verður hann með sína talsmenn.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×