Íslenski boltinn

Þorvaldur: Þetta er allt sama sullið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorvaldur ásamt Jóni Sveinssyni aðstoðarþjálfara Fram.
Þorvaldur ásamt Jóni Sveinssyni aðstoðarþjálfara Fram. Mynd/Heimasíða Fram

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, var vitaskuld ekki ánægður með niðurstöðu leiksins í Keflavík í dag enda Framarar nærri því að ná í stig í Bítlabænum.

"Mér fannst þetta nú ekki sanngjarnt. En það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum, mér fannst þetta ekki sanngjarnt en það skiptir ekki máli hvað mér finnst því við fengum ekkert fyrir leikinn í dag," sagði Þorvaldur í samtali við Vísi í leikslok.

"Það vantar bara að setja boltann yfir þessa hvítu línu, hún er ansi erfið oft og þess vegna eru framherjar oft vandfundnir. Það vantaði herslumuninn að setja markið en boltinn rúllaði fínt hjá okkur og ég var nokkuð ánægður með spilið í 90.mínútur og menn voru að leggja sig fram. En það vantar aðeins upp á en ég vona að það komi og ef menn líta fram á veginn þá held ég að þetta verði allt í lagi."

Aðspurður um Keflavíkurliðið sagði Þorvaldur. "Ég hugsa að það sé ekkert öðruvísi með Keflavíkurliðið en önnur lið í þessari deild, þetta er bara allt sama sullið. Alveg sama í hvað leik þú ferð þá er það alltaf erfitt. Keflavík vann 9 leiki af 11 hér í fyrra og við náðum sigri þá. Við verðum bara að einbeita okkur að okkar leik og reyna að safna stigum í pottinn," sagði Þorvaldur og bætti við að leikurinn í fyrra, þar sem Keflavík varð af titlinum, hefði ekki skipt neinu máli.

"Það er svo langt síðan að menn muna ekki einu sinni hvernig sá leikur var. Þegar það liggur við að það líði heilt ár á milli móta hér á Íslandi þá eðlilega gleyma menn."

Þorvaldur hrósaði Garðari Erni Hinrikssyni í leikslok. "Bæði í dag og í síðasta leik hefur dómgæslan verið mjög góð. Boltinn hefur fengið að rúlla og leikurinn að fljóta. Þó svo að leikurinn hafi virkað hægur til að byrja með vorum við að spila fínan fótbolta og við erum sáttir með það," sagði Þorvaldur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×