Innlent

Súludansmeyjar yfirheyrðar vegna mansalsmáls

Breki Logason skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hefur yfirheyrt erlendar dansmeyjar af súlustöðum hér á landi í tengslum við mansalsmálið sem kom upp um miðjan október. Málið er umfangsmikið og hafa fimm Litháar og einn íslendingur setið í gæsluvarðhaldi sem rennur út á morgun.

Málið kom upp þegar nítján ára stúlka frá Litháen trylltist í flugvél sem var á leið hingað til lands. Tilkynnti hún yfirvöldum að hún væri fórnarlamb mansals og voru fimm Litháar handteknir í kjölfarið. Þeir sitja nú í gæsluvarðhaldi ásamt íslendingi, sem mun vera vinnuveitandi Litháanna, en þeir störfuðu hjá verktakafyrirtæki.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að mansalið tengist vændisstarfsemi, sem grunur leikur á að rekin hafi verið í tengslum við súlustað í Reykjavík. Tvær súludansmeyjar hafa meðal annars verið yfirheyrðar vegna málsins.

Málið er nokkuð umfangsmikið og er nú rannsakað sem skipulögð glæpastarfsemi. Skýrslutökur yfir mönnunum sex hafa staðið yfir í allan dag en gæsluvarðhald yfir þeim rennur út á morgun. Ákvörðun um framlengingu verður tekin í kvöld. Lögreglan á Suðurnesjum telur líklegt að farið verið fram á framlengingu yfir Litháunum fimm, en óljóst er hvað verður gert með íslendinginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×