Innlent

Lítil endurnýjun í prófkjörum flokkanna

Krafan um endurnýjun skilaði sér ekki inn í prófkjör sjálfstæðismanna og Samfylkingar í gær að mati stjórnmálafræðings. Sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins röðuðu sér alls staðar í efstu sætin.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Reykjavík og Suðurkjördæmi fóru fram í gær. Sjálfstæðismenn fengu alls nítján þingmenn í þessum kjördæmum í síðustu kosningum.

Sé miðað við það náðu sjö nýir frambjóðendur og tólf núverandi þingmenn að tryggja sér örugg sæti eða baráttusæti. Fjórum þingmönnum var hins vegar hafnað.

Skoðanakannanir benda þó til þess að Sjálfstæðisflokkurinn muni tapa þingsætum í þessum kjördæmum.

,,Það vekur mesta athygli við þessi prófkjör að það er ekki mjög mikil endurnýjun. Við sjáum það í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík það sama má segja í Suðvestri þar eru sitjandi þingmenn í öllum efstu sætunum," segir Einar.

Hann segir í rauninni sama vera upp á teningnum hjá Samfylkingunni. ,,Sitjandi þingmenn fá mjög fína kosningu. Þannig að krafan um endurnýjun sem var uppi í þjóðfélaginu virðist ekki skila sér inn í þessi prófkjör."

Einar bendir á að kosningaþátttaka hafi verið minni nú en fyrir þremur árum.

,,Það er náttúrulega erfitt að segja afhverju þessi endurnýjun átti sér ekki stað. Vissulega eru þessi prófkjör með tiltölulega skömmum fyrirvara og með litlum tilkostnaði þannig að nýjum frambjóðendum gafst ekki kostur á að kynna sig. Þannig að þeir sem voru fyrir eru best settir."


Tengdar fréttir

Krafa um endurnýjun og öfluga talsmenn

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, telur að niðurstöður í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í gær endurspegli annarsvegar kröfu um endurnýjun og hinsvegar vilja flokksmanna um að hafa atkvæðamikla og öfluga talsmenn í forystu. Hún segir að Samfylkingarfólk hafi refsað Össuri Skarphéðinssyni og að Jón Baldvin Hannibalsson geti gefið frá sér frekari stjórnmáladrauma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×