Innlent

Mikilvægt að halda fólki í ráðningarsambandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, segir að sú hugmynd sem Björn reifi verði að vera samkomulagsatriði.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, segir að sú hugmynd sem Björn reifi verði að vera samkomulagsatriði.
„Það sem okkur hefur þótt mikilvægast er að fólk haldi starfi með þeim ráðum sem tiltæk eru og að stofnanir geri allt sem hægt er áður en það er farið að fækka fólki eingöngu af sparnaðarástæðum," segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM.

Í pistli á vef Landspítalans biður Björn Zoëga, forstjóri spítalans, þá starfsmenn sem geta tekið út lífeyrisréttindi að íhuga það að minnka við sig vinnu. Guðlaug segir að slík leið sé samningsatriði við hvern starfsmann. Þegar yfirmaður stofnunar komi með svona hugmyndir megi ekki beita fólk þrýstingi. „Það er bara verið að benda fólki á leið sem er fær. En þetta er ekkert sem hægt er að láta ganga yfir einhverja ákveðna línu með valdboði," segir Guðlaug.

Guðlaug bendir á að hjá starfsgreinum eins og þeim sem eru á Landsspítalanum séu verkefnum ekki að fækka. Allt sem verði til þess að fækka fólki og vinnandi höndum verði því til þess að leggja meiri byrðar á þá sem fyrir eru. Þess vegna sé mikilvægt að reyna allar leiðir í niðurskurði aðrar en að draga úr vinnu. Þurfi hins vegar nauðsynlega að minnka vinnu fólks sé mikilvægt að leita lausna til þess að halda fólki í ráðningasambandi.




Tengdar fréttir

Hvetur eldri starfsmenn til að minnka við sig vinnu

Björn Zoëga forstjóri Landspítala hvetur starfsmenn spítalans, sem hafa náð þeim aldri að eiga lífeyrisréttindi sem hægt er að taka út, að velta fyrir sér að minnka starfshlutfall og taka út lífeyri á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×