Innlent

Laugavegurinn verður lokaður bílaumferð á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er formaður Umhverfis- og samgönguráðs. Mynd/ GVA.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er formaður Umhverfis- og samgönguráðs. Mynd/ GVA.
Laugavegurinn frá Frakkastíg og Bankastræti verður göngugata eftir hádegi á morgun og vonast er til þess að ökumenn geymi bifreiðar sínar ókeypis í bílahúsunum á meðan.

„Við viljum gefa fótgangandi meira rými og afslappaðra andrúmsloft til að njóta verslunar og menningarlífs á Laugaveginum," segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi. Hún segir að ef borgarbúar taki strikið á Laugaveginn á morgun muni þeir upplifa bæði skemmtilega verslanir og lifandi tónlist þar að auki.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að lokun Pósthússtrætis á góðviðrisdögum hafi heppnast vel í sumar en það hafi verið eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík. Því hafi Umhverfis- og samgönguráð ákveðið að gera tilraun með að loka Laugaveginum í samráði við kaupmenn og íbúa.

Tvær kannanir voru gerðar á vegum Umhverfis- og samgöngusviðs á Laugaveginum af þessu tilefni og kom þá meðal annars í ljós að 70-80% vegfarenda ganga götuna en aðeins rúmlega 20% keyra. Einnig kom í ljós að tæplega helmingur ökumanna á raunverulegt erindi á Laugaveginn, aðrir keyra flestir í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×