Innlent

Lögga á heimleið sá hraðbankaræningjana

Óli Tynes skrifar

Það var lögreglumaður á heimleið sem átti stóran þátt í því að hraðbankaránið í Hveragerði leystist svo fljótt sem raun bar vitni. Lögregluþjónninn vinnur á Selfossi en býr í Reykjavík.

Á leið sinni heim fór hann fram úr tveim bílum sem honum þótti seint á ferð. Annar var sendiferðabíll.

Þar sem ekkert var athugavert við aksturslagið hafði hann ekki afskipti af þeim. Eitthvað hreyfði þó við löggunefinu og hann skrifaði hjá sér númer bílanna.

Þegar hann vaknaði daginn eftir frétti hann af ráninu og að sést hefði til bíls í Hveragerði sem svipaði til annars þess sem hann fór framúr.

Hann hringdi því í félaga sína og gaf þeim upp númerin sem hann hafði tekið niður.

Og það var eins og við manninn mælt ræningjarnir voru varla búnir að telja þýfið þegar bankað var upp hjá þeim.

Um tíu manns voru handteknir og yfirheyrðir með aðstoð túlka. Það þurfti að kalla til túlka á fleiri en einu tungumáli. Eftir yfirheyrslur var þeim svo sleppt aftur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×