Innlent

Minnst sjö þingmenn draga sig í hlé

Sjö af sitjandi þingmönnum hyggjast draga sig í hlé kosningunum í vor. Fleiri gætu bæst í hóp þeirra á næstunni.

Landsmenn ganga að öllum líkindum að kjörborðinu 25. apríl næstkomandi til að kjósa til Alþingis. Krafan um að endurnýjun verði á meðal þingmanna hefur verið hávær og nokkur ný framboð eru í burðarliðnum. Einnig er nokkuð óljóst enn hvort að menn sem standa utan flokka geti boðið sig fram í kosningunum. Á meðal verkefna sem ríkisstjórnin ætlar að ganga í fyrir kosningar er að breyta kosningalögunum þannig að opnaðir verði möguleikar á persónukjöri í kosningum til Alþingis.

Fréttastofa gerði úttekt á því hvaða sitjandi þingmenn hafa hug á að sækjast eftir endurkjöri. Sjö þingmenn eru þegar ákveðnir í að bjóða sig ekki aftur fram. Þetta eru þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Bjarnason, Ellert B. Schram, Geir H. Haarde, Herdís Þórðardóttir, Magnús Stefánsson og Sturla Böðvarsson.

Alls svöruðu fimmtíu og fimm af sextíu og þremur þingmönnum fyrirspurn fréttastofu um hvort þeir hyggðust sækjast eftir endurkjöri. Af þeim sem svöruðu sögðust þrjátíu og sex hafa hug á því. Þeirra á meðal eru fimm núverandi ráðherrrar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kristján L. Möller, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.

Og einnig fyrrverandi ráðherrarnir Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Tólf þingmenn voru enn óákveðnir, töldu ótímabært að svara eða vildu ekki gefa það upp. Þeirra á meðal þingmennirnir Pétur Blöndal og Kolbrún Halldórsdóttir. Ekki bárust svör frá átta þingmönnum, þar á meðal Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.