Fótbolti

Þýskaland mætir Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Enn er óvíst hvort Diego Maradona verði áfram landsliðsþjálfari Argentínu.
Enn er óvíst hvort Diego Maradona verði áfram landsliðsþjálfari Argentínu. Nordic Photos / AFP

Knattspyrnusambönd Þýskalands og Argentínu hafa komist að samkomulagi um að landslið þjóðanna leiki vináttulandsleik í München þann 3. mars næstkomandi.

Liðin sömdu einnig um að leika vináttulandsleik í ágúst árið 2012 en leikur liðanna í mars næstkomandi verður hluti af undirbúningi þeirra fyrir HM í Suður-Afríku næsta sumar.

„Ég er virkilega ánægður með að Argentína hafi samþykkt að spila þennan leik," sagði Joachim Löw, landsþjálfari Þjóðverja, á heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins.

„Liðið átti í nokkrum vandræðum í sinni undankeppni en ég tel liðið þrátt fyrir það eitt það allra sterkasta í heiminum. Við þurfum að eiga toppleik til að vinna Argentínu og þessi leikur verður alvöru prófraun fyrir HM í Suður-Afríku."

Þýskaland leikur tvo vináttulandsleiki í næsta mánuði, gegn Chile og Fílabeinsströndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×