Erlent

Talibanar sprengja enn einn stúlknaskólann

Óli Tynes skrifar
Rústir skólans í Khyber.
Rústir skólans í Khyber.

Talibanar sprengdu í gær upp stúlknaskóla í Khyber í Pakistan. Það er annar stúlknaskólinn sem þeir hafa sprengt í þessari viku en alls hafa þeir sprengt yfir 200 skóla.

Talibanar eru staðráðnir í að hindra að stúlkur fái nokkra menntun. Þær eiga bara að vera heima í búrkunum sínum, vinna húsverk og ala börn.

Stjórnvöld í Pakistan reyndu lengi að friða talibana með því að láta þeim eftir landsvæði sem þeir fengu að stjórna. Til dæmis í Swat dalnum þar sem þeir hafa ráðið lögum og lofum í tæp tvö ár.

Um leið og þeir tóku við völdum í Swat hófu talibanar að berjast gegn menntun stúlkna. Meðal annars með því að sprengja upp skóla þeirra.

Það hefur haft áhrif útfyrir þá skóla sem þeir hafa sprengt. Talibönum er nefnilega alveg sama þótt stúlkur séu inni í skólnum sem þeir sprengja.

Foreldrar stúlkna sem sækja þá skóla sem eftir eru hafa því margir hverjir tekið dætur sínar úr skólanum af ótta við að þær verði myrtar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×