Innlent

Framkvæmdin gæti ógnað vatnsbólunum

Sú hætta er óhjákvæmileg að lagning Suðvestur­línu hafi neikvæð áhrif á vatnsverndar­svæði og um leið neysluvatn ef mengunar­slys verði. Þetta kemur fram í umhverfismati Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Er þar tekið undir áhyggjur heilbrigðisnefnda sveitarfélaga á höfuðborgar­svæðinu. Framkvæmdin er engu að síður talin svo þjóðhagslega mikilvæg að rétt sé að ráðast í hana.

Fagaðilar töldu að best væri að fara aðra leið með línuna en yfir vatnsbólin. Sveitarfélögin töldu þá leið hins vegar heppilegasta, enda væri lína þar fyrir og vegur henni tengdur. Hann þyrfti að styrkja, en með því væri komist hjá því að leggja nýjan veg.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að allrar varúðar verði gætt við lagningu línunnar. Engin eiginleg viðbragðsáætlun sé til ef mengunarslys verði, en þau mál verði að skoða. Þórður segir fyrirtækið ekki tryggt fyrir tjóni af því tagi; besta tryggingin sé að standa vel að málum. Sérstaklega verði hugað að því í útboðinu og við val á verktökum. Hjá Orkuveitunni eru til viðbragðsáætlanir verði slys.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að við framkvæmdir Klæðningar inni á vatnsverndarsvæðinu sumarið 2007 hafi þrír vörubílar oltið. Svo heppilega hafi viljað til í öll skiptin að þeir ultu á „rétta hlið" þannig að búnaður tengdur olíunni skemmdist ekki og ekki dropi af olíu lak niður. Fjórði bíllinn valt utan svæðisins og olíupannan fór undan honum með þeim afleiðingum að mikil olía fór í jarðveginn.

Bæði heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur töldu framkvæmdina geta ógnað vatnsbólunum. Brugðist var við ábendingum þeirra um framkvæmdatíma og ýmislegt fleira.

- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×