Erlent

Ákærðir fyrir að vera tengiliðir hryðjuverkamanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Tarek Mehanna.
Tarek Mehanna.

Gefnar hafa verið út ákærur á hendur tveimur mönnum í Massachusetts fyrir að vera tengiliðir við hryðjuverkamenn og vera þeim til aðstoðar.

Þeir Tarek Mehanna og Ahmad Abousamra hafa lengi verið viðfangsefni rannsóknar lögreglu í bænum Sudbury í Massachusetts og eru tengsl þeirra við al Qaeda-hryðjuverkasamtökin nú talin sönnuð. Meðal annars sáu þeir um þýðingar á ýmsu efni af arabísku yfir á ensku auk þess sem talið er að þeir hafi lagt á ráðin um að fremja sjálfir hryðjuverk en sú áætlun hafi strandað á því að þeim tókst ekki að verða sér úti um sjálfvirk skotvopn.

Þá hafa mennirnir báðir verið í sambandi við þriðja manninn, Daniel Maldonado, sem þegar situr í fangelsi fyrir að hafa sótt þjálfunarbúðir á vegum al Qaeda. Erfitt gæti reynst að hafa hendur í hári annars hinna ákærðu, það er Ahmad Abousamra, þar sem hann er um þessar mundir búsettur í Sýrlandi og fer þar huldu höfði. Mehanna situr hins vegar í gæsluvarðhaldi í Sudbury og bíður þess að koma fyrir dómara 12. nóvember. Hann er 27 ára gamall lyfjatæknir sem býr hjá foreldrum sínum og var áður handtekinn og yfirheyrður í janúar vegna gruns um að vera milligöngumaður hryðjuverkamanna. Hann á einnig von á ákæru fyrir að hafa vísvitandi logið að alríkislögreglunni við yfirheyrslurnar sem þá áttu sér stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×