Innlent

Stækkunarstjóri ESB fundar með ráðamönnum

Guðjón Helgason skrifar
Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, kemur til landsins síðdegis, og mun eiga fundi með forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra.
Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, kemur til landsins síðdegis, og mun eiga fundi með forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra.
Stækkunarstjóri Evrópusambandsins kemur til landsins í dag og fundar með íslenskum ráðamönnum. Hann mun þá afhenda forsætisráðherra ítarlega spurningalista frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, kemur til landsins síðdegis, og mun eiga fundi með forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra. Á fundi sínum með Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, mun hann afhenda henni ítarlegan spurningalista frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en slíkir spurningalistar eru lagðir fyrir þau lönd sem sótt hafa um aðild að ESB.

Svartfellingar, sem sótt hafa um aðild, fengu sinn lista í júlí. Hann er upp á ríflega tvö þúsund spurningar um ýmsa þjóðfélagsþætti. Verið er að kanna hvort umsóknarland uppfylli Kaupmannahafnarskilyrðin frá árinu 1993 um að í ríkjunum séu stofnanir sem tryggi lýðræði og mannréttindi.

Makedóníumenn fengu listann sinn í október 2004 og höfðu skilað svörum sínum tæpum fjórum mánuðum síðar. Sé sá listi skoðaður er farið all ítarlega í marga málaflokka. Spurt er um efnahags- og skattmál, sjávarútveg og landbúnað, og dóms- og utanríkismál svo eitthvað sé nefnt.

Hvað landbúnað varðaði voru Makedóníumenn spurðir um allar niðurgreiðslur til landbúnaðar í landinu og fyrirkomulag þess og einnig fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarkerfis.

Á morgun mun Rehn síðan heimsækja Alþingishúsið og funda með utanríkismálanefnd Alþingis. Síðan mun hann flytja opinn fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×