Innlent

Oftar verði gripið til brottvísunar

Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Útlendingastofnun hafa stillt saman strengi og sameinast um skilning á þeim ákvæðum laga um útlendinga sem snúa að heimildum til að vísa fólki úr landi leiki grunur á að það hafi í hyggju að fremja lögbrot.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri lýsti þeirri skoðun sinni á Bylgjunni í síðustu viku að Útlendingastofnun beitti ekki tiltækum úrræðum gagnvart glæpamönnum sem kæmu hingað til lands í þeim tilgangi einum að fremja afbrot.

„Lögreglan og Útlendingastofnun hafa farið yfir verkferla með það að markmiði að þetta geti gengið hraðar og betur fyrir sig og ég vona að þetta skili því að heimildir til brottvísunar brotamanna verði fullnýttar," sagði Stefán í samtali við Fréttablaðið í gær.

Í útlendingalögum segir að heimilt sé að vísa fólki úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis. Manni með refsidóm á bakinu má vísa úr landi ef hann telst líklegur til að fremja lögbrot.

Ákvörðun um brottvísun er í höndum Útlendingastofnunar og er það hennar að meta hvort grípa beri til úrræðisins.

Stefán Eiríksson segir stofnunina annað slagið hafa vísað fólki úr landi á grundvelli þessa lagaákvæðis en til þess megi grípa í mun meiri mæli.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×