Enski boltinn

Aron: Sagði aldrei að Eiður væri latur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar í baráttu við Michael Essien í dag.
Aron Einar í baráttu við Michael Essien í dag. Nordic Photos / Getty Images
Aron Einar Gunnarsson segir að staðarblaðið í Coventry hafi haft rangt eftir sér í viðtali þar sem hann er sagður kalla Eið Smára Guðjohnsen latan leikmann.

„Það eina sem ég sagði í viðtalinu var að Eiður væri toppnáungi og væri duglegur að leiðbeina okkur ungu strákunum," sagði Aron í samtali við Vísi nú í dag.

„Hvernig dettur mönnum í hug að ég færi að segja svona lagað? Ég er ekki alveg svo heimskur. Maðurinn hefur spilað bæði með Chelsea og Barcelona og þangað komast menn ekki ef þeir eru latir."

Aron sagði þetta eftir að hans menn í Coventry töpuðu fyrir Chelsea í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar í dag.

„Þetta var auðvitað svekkjandi. Ég verð að segja að við gerðum það sem við mögulega gátum og spiluðum ágætlega. En þetta er auðvitað Chelsea - við verðum að átta okkur á því. Það er auðvitað svekkjandi að detta út úr bikarnum en við erum þó í raun sáttir."

„En ég held að ég hafi aldrei hlaupið jafn mikið í einum leik - ég er alveg búinn."

Ítarlegra viðtal birtist við Aron Einar hér á Vísi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×