Innlent

Stóru háskólarnir ræða um samstarf

HR.
HR.

Rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hafa átt samtöl um sameiningu eða víðtækt samstarf háskólanna. Þetta staðfestir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið. Ekki er þó um formlegar viðræður að ræða. Háskólarnir í landinu eru sjö talsins og víðtækt samstarf þeirra á milli hefur verið rætt.

„Ég er þeirrar skoðunar að við þær kringumstæður sem nú ríkja í fjármálum ríkisins verði ekki hjá því komist að skoða í fullri alvöru alla kosti sem geta leitt til hagræðingar og um leið styrkingar háskólastarfsemi í landinu, og láta ekki staðar numið við það sem yrði einfaldast í framkvæmd heldur leita að því sem getur skilað mestum ávinningi," segir Kristín.

„Ef við skoðum hvaða sameining myndi skila langmestum fjárhagslegum ávinningi er það sameining Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Á því leikur enginn vafi. Ég vil ekki nefna neinar tölur í þessu samhengi en þarna yrði um umtalsverðar fjárhæðir að ræða. Slík sameining yrði hins vegar töluvert flókin og viðkvæm og vanda þyrfti afskaplega vel til verka. Úr slíkri sameiningu kæmi hins vegar mjög öflugur skóli, sem myndi mæla sig og keppa við erlenda háskóla."

Um samstarf við aðra háskóla segir Kristín að einföld hugmynd væri að taka upp sameiginlega innritun, sem myndi skila fjárhagslegum ávinningi en ekki valda þáttaskilum.

„Ein sameining sem nefnd hefur verið er möguleg sameining Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólans," segir Kristín.

Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að sameining við skólana í Reykjavík sé ekki inni í myndinni af hans hálfu.

„Yrði farið út í sameiningu þýddi það í raun að háskólinn hér yrði lagður niður," segir Stefán.

- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×