Innlent

Rúmlega þúsund með svínaflensu

Haraldur Briem Ekki leita allir til læknis þótt þeir séu með einkenni inflúensu.
Haraldur Briem Ekki leita allir til læknis þótt þeir séu með einkenni inflúensu.

 Á annað þúsund manns hafa nú veikst af svína­flensu hér á landi að því er talið er. Frá 29. júní til 6. september voru skráð samtals 1.078 tilfelli með inflúensulík einkenni, eða staðfesta inflúensu, í rafrænan gagnagrunn heilbrigðiskerfisins. Þar af voru 492 karlar og 586 konur. Flest tilfellin eru í aldurshópnum 15 til 34 ára. Flest eru skráð á Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu en fæst í Vestmannaeyjum. Svo virðist sem faraldurinn sé fyrr á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu og hann berist seinna út á land, að Vesturlandi frátöldu.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að sjálfsagt séu tilfellin mun fleiri því það séu alls ekki allir sem leiti til læknis þótt þeir fái einkenni inflúensu.

Í byrjun september höfðu svo 176 manns greinst með svínaflensu á landinu, sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 96 karlar og 80 konur. Ekki er vitað um alvarleg veikindi af völdum veirunnar hérlendis. Öll staðfest tilfelli síðastliðnar tvær vikur voru af innlendum toga.

Sóttvarnalæknir minnir á að handþvottur sé mikilvægasta sýkingavörnin, því snerting, bein og óbein, sé lang algengasta smitleið sýkla milli manna. -jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×