Enski boltinn

Slæmt tap hjá Reading

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Ingimarsson í leik með Reading á síðustu leiktíð.
Ívar Ingimarsson í leik með Reading á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images

Reading tapaði í dag heldur óvænt fyrir Swansea í ensku B-deildinni og missti þar með af dýrmætum stigum í baráttu liðsins fyrir úrvalsdeildarsæti.

Swansea vann leikinn, 2-0, með mörkum Jason Scotland og Andrea Orlandi. Liam Rosenior fékk svo að líta rauða spjaldið í liði Reading á 81. mínútu og samstundis kom Brynjar Björn Gunnarsson inn á sem varamaður. Ívar Ingimarsson lék allan leikinn í liði Reading.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði QPR í dag sem vann góðan 2-0 útisigur á lánlausu liði Derby en Nigel Clough tók nýverið við liðinu. Heiðar var tekinn af velli á 64. mínútu en bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Þá vann Coventry góðan 2-1 sigur á Blackpool með mörkum Guillaume Beuzelin og Michael Mifsud. Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í liði Coventry.

Topplið Wolves getur komist í sjö stiga forystu á toppi deildarinnar með sigri á Bristol City á útivelli síðar í dag.

Reading er enn í öðru sæti deildarinnar með 54 stig þar sem liðið í þriðja sæti, Birmingham, náði aðeins jafntefli gegn Cardiff í dag.

Burnley er svo í sjöunda sæti en liðið tapaði í dag fyrir Preston North End. QPR er í áttunda sæti og Coventry í því þrettánda.

Charlton er enn langneðst í deildinni með nítján stig, sjö stigum á eftir næsta liði, eftir að það tapaði fyrir Sheffield Wednesday í dag, 4-1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×