Innlent

Stefán upplýsti hjónin um handtöku Arnarnesræningjanna

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, heimsótti í dag eldri hjón sem haldið var í gíslingu á heimili sínu á laugardagskvöld og tilkynnti þeim að ræningjarnir væru í haldi lögreglu.

„Ég gerði mér ferð heim til þeirra í dag til að segja þeim frá því að beint og milliliðalaust að við værum búin að finna þá sem þarna voru á ferðinni og þeim var augljóslega létt," segir Stefán.

Tveir karlar og tvær konur voru í dag handtekin vegna ráns sem framið var á Arnarnesi á laugardagskvöld. Tveir grímuklæddir karlmenn, vopnaðir hnífum, brutu sér leið inn á heimili eldri hjóna og hótuðu þeim lífláti létu þau ekki fjármuni af hendi.

Stefán segir ránið með því grófara sem komið hafi inn á borð lögreglu síðustu ár. „Þtta er mjög alvarlegt brot og alvarlegasta rán sem ég hef orðið vitni að um langan tíma."

Lögreglan lagði strax allt kapp á að finna ræningjana og samverkamenn þeirra. Fjölmargar vísbendingar bárust frá almenningi sem leiddu svo til þess að karl og kona voru handtekinn í miðbæ Reykjavíkur upp úr hádegi í dag. Skömmu síðar var annað par handtekið í borginni. Báðir karlarnir og önnur konan hafa játað aðild að málinu.

Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim í fyrramálið.




Tengdar fréttir

Arnarnesræningjarnir ófundnir

Enginn hefur enn verið yfirheyrður eða handtekinn og engar haldbærar vísbendingar hafa borist lögregu vegna mannanna tveggja, sem rændu roskin hjón á heimili þeirra á Arnarnesi í Garðabæ undir miðnætti í fyrrakvöld.

Arnarnesræningjarnir handteknir

Fjórir einstaklingar, tveir menn og tvær konur, sem grunuð eru um að hafa ráðist inn á heimili roskinna hjóna á Arnarnesi á kjördag. Mennirnir voru vopnaðir og grímuklæddir þegar þeir ruddust inn á heimilið og hótuðu hjónunum lífláti ef þau létu ekki fjármuni af hendi. Hjónunum var haldið í gíslingu í 15 til 20 mínútur á meðan þeir fóru ránshendi um íbúðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×