Erlent

Viðurkenna að hafa handtekið 4000 manns

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Frá mótmælum í Teheran í júní.
Frá mótmælum í Teheran í júní.

Yfirvöld í Íran segja allt að fjögurþúsund manns hafa verið tekin höndum í kjölfar mótmæla vegna forsetakosninga þar í landi í júní. Það er mun meiri fjöldi en áður hafði verið gefinn til kynna.

Talsmaður dómsmála þar í landi sagði langflesta hafa verið látna lausa innan við viku síðar, en um 300 manns sem talið er að hafi tekið beinan þátt í óeirðum hafi verið lengur í haldi.

Nú standa yfir réttarhöld yfir fleiri en hundrað mótmælendum vegna meintrar þátttöku þeirra í óeirðunum. Þeirra á meðal eru stjórnarandstæðingar, aðgerðasinnar, blaðamenn, lögfræðingar og starfsmenn erlendra sendiráða.

Í frétt BBC um málið segir að réttarhöldin hafa verið gagnrýnd af bæði erlendum ríkjum og mannréttindasamtökunum, en írönsk yfirvöld halda því fram að þau séu fullkomlega lögmæt og standist alþjóðlegar kröfur um réttarfar.

Tölur yfir látna í óeirðunum í júní hafa nokkuð verið á reiki, en einn samverkamaður forsetaframbjóðandans Mousavi heldur því fram að allt að 69 manns hafi látist. Það er rúmlega tvöfalt fleiri en opinberar tölur gáfu fyrst til kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×