Innlent

Vill sátt um aðhaldsaðgerðir

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra ætlar að leita eftir þverpólitískri samvinnu um málefni Landhelgisgæslunnar. Hún hyggst setja á fót starfshóp þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu með embættismönnum úr dómsmálaráðuneytinu og frá Landhelgisgæslunni.

„Landhelgisgæslan hefur þurft að grípa til aðhaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega hafa skert getu hennar til að sinna hlutverki sínu af þeim metnaði sem menn hafa. Starfshópurinn hefði það verkefni að fara yfir landhelgisgæsluáætlun og aðra stefnumótun,“ segir Ragna. „Meðal annars yrði farið yfir rekstur varðskipa og þyrlureksturs og hvernig þessum málum sé best háttað bæði í nútíð og til framtíðar.“

TF-Lif Fer í skoðun árið 2010 sem kostar 250 milljónir króna. fréttablaðið/daníel

Fyrirhugaður er verulegur niðurskurður á fjárveitingum á næstunni en á næsta ári stendur LHG frammi fyrir stórri skoðun á TF LIF sem kostar allt að 250 milljónir króna. Á sama tíma er gert ráð fyrir því í núgildandi landhelgisgæsluáætlun að varðskipum fjölgi og úthald þeirra verði aukið. Þá hefur verið samið við Norðmenn um samstarf í innkaupum vegna heildarendurnýjunar þyrluflotans.

„Í þessu ljósi er nauðsynlegt að skoða málefni LHG í heild sinni vegna minnkandi fjárveitinga. Þá tel ég mikilvægt að ná víðtækri sátt um þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist verður í og þá forgangsröðun verkefna sem er óhjákvæmileg,“ segir Ragna. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×