Innlent

Utanríkisráðuneytið styrkir UNICEF

Mynd/GVA

Íslandsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur fengið átta milljónir króna úthlutað frá utanríkisráðuneytinu vegna langvinns neyðarástands í Austur-Kongó. Styrkurinn rennur til verkefna barnahjálparinnar gegn kynferðisofbeldi og aðstoðar konur og stúlkur sem hefur verið nauðgað en kynferðisofbeldi er beitt í landinu í hernaðarlegum tilgangi.

Allt frá upphafi átakanna fyrir tíu árum hefur kynferðisofbeldi gegn konum og stúlkubörnum verið beitt í hernaðarlegum tilgangi. Í tilkynningu UNICEF á Íslandi segir að konum og stúlkum hafi verið skipulega nauðgað til að niðurlægja þær og sundra fjölskyldum og samfélögum. UNICEF áætlar að þolendur nauðgana séu mörg hundruð þúsund og að þar af sé yfir helmingurinn börn.

Styrkur utanríkisráðuneytisins rennur meðal annars til uppbyggingar á athvarfi fyrir konur og stúlkur sem hefur verið nauðgað en eiga þess ekki kosta að fara aftur til fjölskyldna sinna. Fram kemur í tilkynningunni að í athvarfinu fá þær heilsugæslu, menntun og tækifæri til að afla sér tekna, en umfram allt umhyggju og öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×