Innlent

Óttast að missa starfsfólk

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir að erfið sigling bíði þeirra sem reki ríkisstofnanir næstu árin. 
Fréttablaðið/úr safni
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir að erfið sigling bíði þeirra sem reki ríkisstofnanir næstu árin. Fréttablaðið/úr safni
Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA), býst við að stofnunin þurfi að skera niður um 100-150 milljónir króna á næsta ári. Hann býst jafnvel við enn meiri niðurskurði næstu ár á eftir, eða um allt að 25 prósent af því rekstrar­fé sem stofnunin hefur haft.

„Við höfum ekki séð áætlanir stjórnvalda en miðað við þær forsendur sem fjármálaráðuneytið hefur gefið sér um 5-6 prósenta niðurskurð í heilbrigðisþjónustu má gera ráð fyrir að við þurfum að draga saman um meira en hundrað milljónir á næsta ári,“ segir forstjórinn.

Einar Rafn telur að ekki verði komist hjá uppsögnum eða niðurskurði hjá HSA ef þessar forsendur ganga eftir. „Ég vitna bara í orð heilbrigðisráðherra í Fréttablaðinu sem sagði að menn gætu ekki látið sig dreyma um að halda óbreyttum mannafla eða þjónustu,“ segir Einar Rafn.

Rekstrarkostnaður HSA var um 2,3 milljarðar í fyrra en áætlaður rekstrarkostnaður í ár er um tveir milljarðar. Forstjóri HSA segir að ef áætlanir um niðurskurð gangi eftir megi búast við því að niðurskurðurinn hlaupi á um 500 milljónir á nokkrum árum.

„Ef þessi spá er ljóst að starfsemin verður þá ekki eins og hún er í dag,“ segir Einar Rafn.

- kh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×