Innlent

Óttast ásókn í skattfé almennings

Ekki er einfalt mál að einkavæða heilbrigðisþjónustu segir heilbrigðis­ráðherra. Fréttablaðið/Stefán
Ekki er einfalt mál að einkavæða heilbrigðisþjónustu segir heilbrigðis­ráðherra. Fréttablaðið/Stefán
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra vill skoða vel hugmyndir um einkarekið sjúkrahús, en óttast afleiðingar þess að opna dyr einkarekinnar heilbrigðis­þjónustu hér á landi.

Fyrirtækið PrimaCare áformar að reisa spítala með 120 herbergjum sem mun sérhæfa sig í hnjá- og mjaðmaaðgerðum fyrir erlenda ríkisborgara, eins og fram kom í Fréttablaðinu á fimmtudag.

„Þetta er lagt upp sem fyrirtæki sem ekki á að fjármagna með skattfé. Það vakna hins vegar spurningar, til dæmis hvort það muni skapast þrýstingur á slíkar greiðslur þegar fram í sækir,“ segir Ögmundur.

Hann segir að forvitnilegt verði að heyra hugmyndir og framtíðar­sýn forsvarsmanna PrimaCare, og á von á því að funda með þeim í næstu viku.

„Það er ekki einfalt mál að taka heilbrigðisþjónustu og færa hana út á markaðstorgið. Hún er, þegar á heildina er litið, fjármögnuð með almannafé, skattgreiðslum okkar allra. Auðvitað mun ég sem heilbrigðisráðherra og gæslumaður almannahagsmuna vilja sjá alla enda í þessu máli áður en ég móta mér skoðun. En ég hef aldrei verið sérlega hugfanginn af hugmyndum um einkarekna spítala,“ segir Ögmundur.

Ekki þarf samþykki heilbrigðisráðherra til að starfrækja einkarekinn spítala hér á landi, en landlæknir verður að veita starfseminni starfsleyfi. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×