Erlent

Mágur Mousavis handtekinn

Rahim Mashai og Ahmadinejad Mashai hætti snarlega við að verða varaforseti Ahmadinejads. fréttablaðið/ap
Rahim Mashai og Ahmadinejad Mashai hætti snarlega við að verða varaforseti Ahmadinejads. fréttablaðið/ap
Shahpour Kazemi, mágur stjórnarandstöðuleiðtogans Mir Hossein Mousavi, hefur verið handtekinn í Íran. Zahra Rahnavard, sem er eiginkona Mousavis og systir Kazemis, skýrði frá þessu í gær.

Hún ráðlagði jafnframt stjórnvöldum að birta engar „nauðugar játningar“ frá honum eða öðrum, sem handteknir hafa verið í tengslum við mótmælin og óróleikann þar undanfarnar vikur.

Um fimm hundruð manns hafa verið handtekin eftir kosningarnar umdeildu, sem fóru fram 12. júní. Mousavi og stuðningsmenn hans hafa ekki trú á því að Mahmoud Ahmadinejad forseti hafi borið sigur úr býtum í þeim kosningum.

Rahnavard segir bróður sinn, Kazemi, engan áhuga hafa á stjórnmálum og ásakanir um að hann hafi efnt til óeirða og verið í tengslum við útlendinga séu óskiljanlegar.

Hin umdeildu kosningaúrslit hafa valdið sjaldséðum klofningi í valdastétt landsins. Æðsti leiðtoginn, Ali Khameini, hefur vísað á bug öllum efasemdum um kosningaúrslitin og lýst stuðningi við Ahmadinejad. Aðrir úr klerkastéttinni, meðal annars Akhbar Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti, hafa lýst stuðningi við Mousavi og krefjast þess að vafa um kosningaúrslitin verði eytt.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×