Enski boltinn

West Brom enn á botninum eftir tap gegn Fulham

Zamora og Johnson fagna marki þess síðarnefnda. Þeir komust báðir á blað í leiknum
Zamora og Johnson fagna marki þess síðarnefnda. Þeir komust báðir á blað í leiknum AFP

Fulham vann í dag sanngjarnan 2-0 sigur á botnliði West Brom í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni.

Fulham er komið í 8. sæti deildarinnar og vann enn einn leikinn á heimavelli - aðeins Manchester United hefur betri árangur heima en Lundúnaliðið.

Bobby Zamora skoraði fyrra mark Fulham á 61. mínútu og var það fyrsta mark fyrrum West Ham-mannsins í úrvalsdeild í 1763 mínútur.

Aðeins ellefu mínútum síðar bætti félagi hans í framlínunni Andy Johnson við öðru marki Fulham eftir að markvörður West Brom náði ekki að halda skoti Zamora.

Til að bæta gráu ofan á svart varði Mark Schwarzer svo vítaspyrnu frá Roman Bednar í uppbótartíma og fullkomnaði ömurlegan dag fyrir West Brom, sem tapaði síst of stórt í dag.

West Brom hefur aðeins 22 stig í neðsta sæti deildarinnar, einu minna en Middlesbrough og Blackburn sem eru í hinum tveimur fallsætunum með 23 stig.

Tottenham og Stoke eru svo skammt þar fyrir ofan með 25 stig. Blackburn og Tottenham eiga leik til góða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×