Innlent

Staða þingmanna misjöfn

Þeir sextíu og þrír einstaklingar sem sitja á Alþingi skulda að meðaltali rétt rúmar nítján milljónir í húsum sínum. Fjórir þingmenn skulda ekki neitt en þeir sem mest skulda eru með rúmar fimmtíu milljónir áhvílandi á íbúðum sínum.

Staða alþingismannanna er eins og misjöfn og þeir eru margir. Þeir sem eldri og reyndari eru skulda minna heldur en ungir þingliðar sem hafa margir hverjir verið að koma sér fyrir á meðan fasteignarmarkaðurinn var í sem mestri sveiflu. Eins og áður sagði eiga fjórir þingmenn, Jón Magnússon, Geir H. Haarde, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Sverrisdóttir, skuldlausar eignir en sá sem skuldar mest er með rétt rúmlega 51 milljón áhvílandi á húsi sínu. Þá er ekki búið að uppreikna lánin heldur er miðað við nafnverð þeirra.

Íslenskur almenningur er í eilítið betri stöðu en alþingismennirnir. Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands skulduðu þau 97 þúsund íslensk heimili, sem töldu fram fasteignir á síðasta skattaframtali, um 1300 milljarða í íbúðalán hjá bönkum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði í lok september. Það gerir að meðaltali um 13,4 milljónir á hverja fasteign sem rúmum fimm milljónum minna en hjá alþingismönnunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×