Íslenski boltinn

Erum ekki bara Scott Ramsey

Elvar Geir Magnússon skrifar
Orri Hjaltalín, fyrirliði Blika.
Orri Hjaltalín, fyrirliði Blika.

Það var boðið upp á stórskemmtilegan leik á Kópavogsvelli í kvöld þar sem Grindavík vann 6-3 sigur á Breiðabliki. Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, var skælbrosandi í leikslok enda fyrstu stig liðsins komin í hús.

„Þetta er gaman fyrir okkar stuðningsmenn og bara alla fótboltaáhugamenn. Leikurinn var ótrúlega mikil skemmtun. Svona eiga leikir að vera, sóknarleikur frá upphafi til enda," sagði Milan Stefán „Hjá báðum liðum voru nokkrir mjög ungir og sprækir leikmenn að spila og það er bara jákvætt."

Grindavíkurliðið gerði út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 1-5. Varnarmenn Blika réðu ekkert við sókn Grindvíkinga. Scott Ramsey átti enn einn stórleikinn.

„Ramsey hefur verið alveg frábær en í þessum leik sást alveg að við erum ekki bara Scott Ramsey. Við erum með fleiri sem eru góðir fótboltamenn og hann myndi ekki blómstra svona nema hafa fleiri góða leikmenn í kringum sig. Hann er samt klárlega einn besti leikmaður landsins í dag, ekki spurning," sagði Milan Stefán.

„Þetta var rosalega mikilvægur sigur. Það var engin pressa á okkur fyrir leikinn og það hjálpaði. Við ætlum bara að halda áfram að spila okkar leik, við vissum að þetta myndi detta með okkur," sagði Milan Stefán en þrátt fyrir að hafa verið stigalausir fyrir leikinn hafa Grindvíkingar verið að leika nokkuð vel á köflum í byrjun móts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×