Enski boltinn

Allt um leiki dagsins: Fulham úr fallsæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Fulham fagna marki Brian McBride.
Leikmenn Fulham fagna marki Brian McBride. Nordic Photos / Getty Images

Fulham vann Birmingham í botnslag dagsins í ensku úrvalsdeildinin á meðan að Reading tapaði fyrir Tottenham.

Þetta þýðir að Fulham er komið úr fallsæti á kostnað Reading en bæði lið eru með 33 stig. Fulham er með betra markahlutfall.

Bolton er einnig með 33 stig en mætir Sunderland síðar í dag. Sigur í þeim leik færi langt með að tryggja Bolton sæti í efstu deild á næstu leiktíð.

Everton er nánast öruggt með fimmta sæti deildarinnar eftir að Aston Villa tapaði fyrir Wigan á heimavelli í dag, 2-0, og Portsmouth tapaði fyrir Middlesbrough á útivelli, 2-0.

Þá vann Blackburn auðveldan 3-1 sigur á Derby. Allt um leiki dagsins sem hófust klukkan 14.00 hér að neðan.

Olof Mellberg gengur af Villa Park í síðasta sinn með syni sínum.Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa - Wigan 0-2

0-1 Antonio Valencia (52.)

0-2 Antonio Valencia (63.)


Leikurinn í dag var sá síðasti sem Olof Mellberg spilar á Villa Park en hann er á leið til Juventus. Hann hefur verið veikur undanfarna daga en lét það ekki á sig fá.

Emile Heskey hefur átt við meiðsli að stríða en var engu að síður í byrjunarliði Wigan í dag. Emmerson Boyce var einnig í byrjunarliðinu í stað Mario Melchiot sem er meiddur.

Bæði lið komust nálægt því að skora í fyrri hálfleik. Marcus Bent átti skot rétt yfir slá heimamanna en Chris Kirkland varði svo vel frá Gabriel Agbonlahor skömmu síðar.

En fyrsta mark leiksins kom snemma í síðari hálfleik er Antonio Valencia kom gestunum yfir með skoti sem breytti um stefnu á Wilfried Bouma og fór í markið.

Gareth Barry komst nálægt því að jafna metin en skot hans missti rétt svo marks. Aðeins mínútu síðar náðu gestirnir að tvöfalda forystu sína.

Valencia var þar aftur að verki en hann gerði vel með því að ná sendingu Heskey og þruma knettinum í markið frá vítateigslínunni.

Kirkland var svo aftur vel á verði er hann varði góðan skalla frá Agbonlahor.

Niðurstaðan því 2-0 sigur Wigan sem er komið upp í þrettánda sæti deildarinnar um stundarsakir, að minnsta kosti.

Hins vegar er það nú nánast útilokað að Aston Villa nái þriðja sætinu af Everton sem er þremur stigum á undan Aston Villa og með mun betra markahlutfall þar að auki.

Jason Roberts og Morten Gamst Pedersen fagna marki þess fyrrnefnda í dag.Nordic Photos / Getty Images

Blackburn - Derby 3-1

0-1 Kenny Miller (19.)

1-1 Roque Santa Cruz (45.)

2-1 Jason Roberts (47.)

3-1 Roque Santa Cruz (77.)


Mark Hughes, stjóri Blackburn, stillti upp sama byrjunarliði og hann hefur gert í síðustu þremur leikjum sínum. Paul Jewell gerði hins vegar þrjár breytingar á liðinu sem tapaði stórt fyrir Arsenal um síðustu helgi.

Kenny Miller kom Derby yfir um miðbik fyrri hálfleiksins en hann hirti boltann eftir útspark markvarðarins og skoraði af miklu öryggi.

Roque Santa Cruz náði svo að jafna metin fyrir heimamenn í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að hann náði að fylgja eftir skoti Morten Gamst Pedersen sem Roy Carroll varði.

Strax í upphafi síðari hálfleiks náði Blackburn forystunni þökk sé marki Jason Roberts og slaks varnarleiks af hálfu botnliðsins.

Santa Cruz innsiglaði svo sigurinn með góðum skalla eftir fyrirgjöf David Bentley.

Blackburn fór upp fyrir Portsmouth með sigrinum og er nú í sjöunda sæti deildarinnar með 58 stig. Derby er enn á botninum með ellefu stig. Þetta var 25. leikur Paul Jewell með Derby en hann er enn að bíða eftir fyrsta sigrinum í vetur.

Paul Konchesky og Clint Dempsey fagna síðara marki Fulham í dag.Nordic Photos / Getty Images

Fulham - Birmingham 2-0

1-0 Brian McBride (52.)

2-0 Erik Nevland (87.)


Fulham vann sigur á Manchester City um síðustu helgi og gerðu eina breytingu á byrjunarliðinu. Diomansy Kamara fór í fremstu víglínu í stað David Healy.

Damien Johnson var í liði Birmingham á ný eftir að hafa tekið út leikbann en hann kom inn í stað Mehdi Nafti sem á við meiðsli að stríða.

Maik Taylor stóð í marki Birmingham og hann var vel á verði strax í upphafi leiks er Simon Davies komst nálægt því að skora eftir aukaspyrnu Jimmy Bullard.

Birmingham átti sín færi líka en Mikael Forssell fékk eitt slíkt eftir að hann fékk góða sendingu frá Sebastian Larsson. Forssell náði hins vegar ekki stjórn á boltanum og því rann gott færi út í sandinn.

Það var því markalaust í fyrri hálfleik en fljótlega í þeim síðari skoraði Bandaríkjamaðurinn Brian McBride líklega eitt mikilvægasta mark Fulham á leiktíðinni. Jimmy Bullard tók aukaspyrnu inn á teig Birmingham og náði McBride að skalla boltann laglega í netið.

Varamaðurinn Erik Nevland náði svo að tryggja sigurinn er hann tók við langri sendingu frá vallarhelmingi Fulham, slapp einn inn fyrir vörn Birmingham og skoraði af miklu öryggi.

Þar með er Fulham komið upp úr fallsæti en þó alls ekki laust við fallhættuna. Liðið er með 33 stig, rétt eins og Bolton og Reading en er með betra markahlutfall en síðastnefnda liðið.

Bolton á þó inni leik gegn Sunderland síðar í dag og gætu með sigri nánast tryggt veru sína í efstu deildinni.

Fulham mætir Portsmouth á útivelli í lokaumferð deildarinnar um næstu helgi.

Birmingham er nú í næstneðsta sæti deildarinnar með 32 stig. Það verður því að treysta á að tvö af þremur liðunum fyrir ofan (Bolton, Reading og Fulham) misstígi sig á lokasprettinum og vinni svo Blackburn á heimavelli í lokaumferðinni.

Afonso Alves reynir skot að marki Portsmouth.Nordic Photos / Getty Images

Middlesbrough - Portsmouth 2-0

1-0 Chris Riggott (40.)

2-0 Sanli Tuncay (53.)


Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth á nýjan leik eftir að hafa tekið út leikbann um síðustu helgi. Hann lék að venju í stöðu vinstri bakvarðar sem Lauren leysti um síðustu helgi.

David James var ekki með Portsmouth í dag og Jamie Ashdown stóð því á milli stanganna. Milan Baros og Jermain Defoe voru í sóknarlínu liðsins.

Heimamenn gerðu þó nokkrar breytingar á sínu liði en Mark Schwarzer var í markinu á nýjan leik. Chris Riggott og Fabio Rochemback voru í byrjunarliðinu á kostnað Andrew Taylor og Lee Cattermole.

Leikurinn var afar tíðindalítill þar til Riggott, sem var í láni hjá Stoke í vetur, skoraði gott skallamark eftir hornspyrnu Rochemback.

Tuncay bætti við öðru marki snemma í síðari hálfleik með skalla eftir hornspyrnu Stewart Downing.

Middlesbrough gulltryggði veru sína í efstu deild með sigrinum en Portsmouth á nú engan möguleika á sæti í UEFA-keppninni.

Robbie Keane og Steed Malbranque fagna sigurmarki Tottenham í dag.Nordic Photos / Getty Images

Reading - Tottenham 0-1

0-1 Robbie Keane (16.)

Ívar Ingimarsson var á sínum stað í vörn Reading en Brynjar Björn Gunnarsson var ekki í leikmannahópi liðsins þó svo að hann hafi spilað með varaliði liðsins í vikunni. Brynjar Björn hefur ekki leikið með aðalliði Reading síðan í janúar vegna meiðsla.

Steve Coppell stillti því upp sama liði og gerði markalaust jafntefli við Wigan um síðustu helgi.

Dimitar Berbatov og Aaron Lennon voru ekki með Tottenham í dag en þeir Darren Bent og Jermaine Jenas komu inn í liðið í þeirra stað.

Tottenham byrjaði betur og Bent átti skalla rétt fram hjá marki Reading í upphafi leiks. Bent átti annað hálffæri skömmu síðar en í þetta sinn var varið frá honum.

Robbie Keane nýtti hins vegar sitt fyrsta færi vel og skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins sextán mínútna leik. Bent lagði upp markið fyrir Keane sem fór fram hjá einum varnarmanni og skilaði knettinum örugglega í netið.

Steed Malbranque náði að koma boltanum í netið öðru sinni fyrir Tottenham en var ranglega dæmdur rangstæður og markið því dæmt af.

Þannig var staðan í hálfleik og ekki mikið útlit fyrir að þetta myndi breytast mikið í þeim síðari. Tottenham var nærri því að bæta við öðru markinu en Reading að jafna metin en Bent átti gott skot í stöng undir lok leiksins.

Reading fékk reyndar gott færi í blálokin er Radek Cerny varði vel frá Dave Kitson sem var kominn í frábært skotfæri. Niðurstaðan engu að síður sigur Tottenham.

Reading er því í ansi slæmum málum fyrir lokaumferðina en þökk sé sigri Fulham á Birmingham er liðið í fallsæti, þriðja neðsta sæti deildarinnar, með 33 stig. Bolton og Fulham eru einnig með 33 stig en Reading með slakasta markahlutfallið.

Reading mætir Derby á útivelli í lokaumferðinni og því ef til vill ekki öll nótt úti enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×