Enski boltinn

Scolari mætti ekki á blaðamannafund

Scolari og félagar voru ósáttir við brottvísun John Terry
Scolari og félagar voru ósáttir við brottvísun John Terry NordicPhotos/GettyImages

Luiz Felipe Scolari, stjóri Chelsea, sleppti því viljandi að mæta á blaðamannafund í gær eftir 0-0 jafntefli hans manna við Everton. Það gerði hann til að koma sér ekki í vandræði með óheppilegum ummælum um frammistöðu dómarans.

Phil Dowd dómari var í sviðsljósinu þegar hann rak John Terry fyrirliða Chelsea af velli og gaf honum beint rautt spjald fyrir tæklingu á Leon Osman í fyrri hálfleik.

"Þjálfarateymið treysti sér ekki til að veita viðtöl eftir leikinn því mönnum þótti sýnt að þeir kæmu sér í vandræði ef þeir tjáðu sig," sagði talsmaður Chelsea.

Rauða spjaldið hans Terry þýðir væntanlega að kappinn muni fara beint í þriggja leikja bann og missi þar með af jólatörninni með liðinu.

Hann missir þá væntanlega af leikjum gegn West Brom og Fulham og bikarleik gegn Southend.

Terry ætti þó að verða orðinn klár á ný þegar Chelsea sækir meistara Manchester United heim laugardaginn 11. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×