Innlent

Tvær grímur farnar að renna á Rússana?

Svo virðist sem efasemda sé farið að gæta hjá Rússum um að lána Íslendingum fé ef marka má orð aðstoðarfjármálaráðherra landsins, Dmítrí Pankin.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að upphaflegar hugmyndir hafi gert ráð fyrir því að Rússar myndu lána Íslendingum fjóra milljarða evra. Hins vegar segir Pankin í samtali við Prime-Tass fréttastofuna í dag að erfitt geti reynst að samþykkja lán í ljósi þess að bankakerfið hér sé hrunið.

Um sé að ræða áhættusama fjárfestingu og jafnvel þótt ákvörðun yrði tekin um að samþykkja lán þá þyrftu menn að vega og meta vel alla áhættu. Pankin segir rússnesk stjórnvöld nú bíða niðurstöðu mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hvort aðrir komi að björgunaraðgerðum á Íslandi áður en endanleg ákvörðun verði tekin.

Eins og fram hefur komið hefur Geir H. Haarde forsætisráðherra þegar óskað eftir aðstoð hinna norrænu ríkjanna og hafa þau ákveðið að setja á fót starfshóp til þess að fylgjast með því hvernig samstarfi Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins reiðir af. Þá hefur einnig komið fram að Seðlabanki Íslands hafi falast eftir lánum hjá Seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×