Innlent

Árs fangelsi fyrir manndráp af gáleysi í umferðarslysi

Hæstiréttur hefur staðfest eins árs fangelsisdóm héraðsdóms yfir tuttugu og fjögurra ára gömlum karlmanni, Þórði Jónsteinssyni, fyrir manndráp af gáleysi tengslum við umferðarslys á Suðurlandsvegi til móts við Sandskeið í desember 2006.

Þórður var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið sinni of hratt miðað við aðstæður. Hann var að taka fram úr vörubíl og lenti í árekstri við bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Farþegi í þeirri bifreið lést, annar farþegi lamaðist á fótum, ökumaður þeirrar bifreiðar rifbrotnaði og marðist á brjóstkassa, kviðvegg og hné og þá lést farþegi í bifreið hins ákærða.

Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, var talið sannað með vitnisburði tveggja vitna að Þórður hefði í umrætt sinn ætlað sér að aka fram úr vörubifreið og í því skyni ekið yfir á rangan vegarhelming. Var aksturinn talinn gáleysislegur og vítaverður miðað við þær aðstæður sem á vettvangi voru en vegurinn var blautur.

Hefur verið tekinn níu sinnum fyrir hraðakstur eftir slysið

Við mat á refsingu Þórðar var meðal annars litið til þess að hann hafði í alls níu skipti eftir umrætt slys verið staðinn að hraðakstri. Að þessu virtu þótti refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi en ekki þótti stætt á að skilorðsbinda refsinguna að hluta. Þá var hann sviptur ökuleyfi í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×