Innlent

Tuttugu milljónir úr neyðarsjóði til að aðstoða fólk fyrir jólin

Anna Stefánsdóttir er formaður RKÍ.
Anna Stefánsdóttir er formaður RKÍ.

Stjórn Rauða kross Íslands hefur samþykkt að veita 20 milljónir króna úr neyðarsjóði félagsins til að aðstoða einstaklinga hér á landi í desember. Þetta er meðal annars gert til að mæta þörf þess fjölda fólks sem hefur farið illa út úr efnahagsþrengingum undanfarinna vikna og þarf sérstaklega á aðstoð að halda fyrir jólin.

Fram kemur í tilkynningu Rauða krossins að fjármununum verði skipt milli allra 50 deilda Rauða krossins á landinu en þær hafi um árabil unnið að úthlutun nauðþurfta fyrir jólin. Á ýmsum stöðum á landinu starfar Rauði krossinn í samvinnu við mæðrastyrksnefndir, Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri aðila.

Rauði krossin býr sig einnig undir að sjálfboðaliðum muni fjölga, bæði vegna þess að skjólstæðingar verða fleiri og ekki síður vegna þess að mikivægt er að bjóða þeim sem missa vinnuna tækifæri til þess að halda sér virkum í samfélaginu. Hvetur Rauði krossinn fólk sem vill gerast sjálfboðaliði að skrá sig á raudikrossinn.is, hringja í síma 570 4000 eða hafa samband við Rauða kross deildina í sínu byggðarlagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×