Enski boltinn

Drogba fékk að heyra það frá liðsfélögunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Didier Drogba, leikmaður Chelsea.
Didier Drogba, leikmaður Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Eftir því sem enska dagblaðið Daily Mail heldur fram munu leikmenn Chelsea flestir hafa gagnrýnt Didier Drogba afar harkalega á fundi þeirra í gær.

Drogba sagði í viðtali á dögunum að hann væri einmana hjá Chelsea og að það hafi mætt litlum skilningi þegar að amma hans lést.

Samkvæmt heimildum blaðsins munu leikmenn hafa sameinast um að gagnrýna Drogba harkalega fyrir viðtalið og einn leikmaður sagði gagnrýna hans á félagið algjört kjaftæði þar sem það hafi útvegað honum einkaþotu svo hann gæti farið til síns heima í kjölfar andláts ömmu hans.

Luiz Felipe Scolari, þjálfari Chelsea, safnaði leikmönnum saman til að ræða opinskátt um tímabilið hingað til. Leikmenn ræddu leikaðferðir, æfingar og margt fleira en menn voru sagðir fyrst og fremst sameinaðir í afstöðu sinni gagnvart Drogba.

Enn fremur er það fullyrt að leikmenn vilji að Drogba verði seldur frá félaginu og það sem allra fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×