Íslenski boltinn

Veldu besta mark níundu umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Páll Snorrason skoraði fallegasta mark áttundu umferðar.
Ólafur Páll Snorrason skoraði fallegasta mark áttundu umferðar. Mynd/Víkurfréttir/Þorgils

Vísir, Stöð 2 Sport og Landsbankinn standa fyrir kosningu á besta markinu í hverri umferð í Landsbankadeild karla. Síðasta kosning fór af stað í gær eftir að níundu umferðinni lauk í fyrrakvöld.

Hægt er að sjá þau fimm mörk sem eru tilnefnd hverju sinni á auglýsingaborða Landsbankans sem má finna víða í netheimum, til að mynda á forsíðu íþróttavefs Vísis sem og hægra megin á þessari síðu. Þar er smellt á Bestu mörkin og níunda umferð valin.

Einnig má skoða mörkin í borðanum sem má alltaf finna á vef deildarinnar, landsbankadeildin.is.

Sigurmark Ólafs Páls Snorrasonar í leik Fjölnis og Keflavíkur var kosið besta mark áttundu umferðar. Kosningin fer fram á slóðinni visir.is/bestumorkin.

Á áðurnefndum borða má einnig skoða þau fimm mörk sem hafa verið tilnefnd í hverri umferð. Það eru því upptökur af 45 mörkum aðgengilegar á borðanum.

Mörkin sem eru tilnefnd að þessu sinni eru sérstaklega glæsileg enda var mikið af fallegum mörkum skorað í umferðinni. Alls voru mörkin sautján talsins.

Tómas Leifsson er tilnefndur fyrir sigurmark Fjölnis í leik gegn Fylki sem var flýtt til 11. júní.

Arnar Grétarsson, Breiðabliki, og Andri Steinn Birgisson, Grindavík, skoruðu báðir með föstu skoti utan teigs og eru tilnefndir sömuleiðis.

Þá er Pálmi Rafn Pálmason, Val, tilnefndur fyrir mark sitt gegn Þrótti sem og Arnar Gunnlaugsson fyrir markið sem hann skoraði beint úr aukaspyrnu fyrir FH gegn Fram.

Kosningin verður opin fram til hádegis þess dags sem næsti þáttur Landsbankamarkanna verður sýndur á Stöð 2 Sporti. Í næsta þætti verður svo niðurstaða kosninganna sem er í gangi nú tilkynnt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×