Enski boltinn

Hicks vill bjóða Benitez framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tom Hicks og George Gillett á meðan allt lék í lyndi.
Tom Hicks og George Gillett á meðan allt lék í lyndi. Nordic Photos / Getty Images

Tom Hicks, annar eiganda Liverpool, segir í samtali við fréttastofu Sky að hann vilji bjóða Rafael Benitez knattspyrnustjóra eins árs framlengingu á samningi hans ef Hicks tekst að kaupa George Gillett út úr félaginu.

Mikið hefur gengið á í tengslum við eigendur félagsins en þeir ræðast ekki við þessa dagana. Hicks sagði í viðtalinu að hann vilji kaupa hlut Gillett og sé að undirbúa tilboð til þess.

Hann sagði enn fremur að hann myndi aldrei selja sinn hlut í Liverpool. Né heldur fara í samstarf við fjárfestingarfélagið DIC frá Dubai.

Í viðtalinu gagnrýndi Hicks Rick Parry, framkvæmdarstjóra Liverpool. Hann sagði að hans tími hjá félaginu hefði verið hræðilegur.

„Við höfum dregist langt aftur úr stóru félögunum. Nýji leikvangurinn hefði átt að vera byggður fyrir 3-4 árum. Við erum með 2-3 styrktaraðila. Þeir ættu að vera 12-15 talsins."

„Við eigum gríðarlega marga stuðningsmenn í Asíu. Samt gerum við ekkert þar í líkingu við það sem Manchester United og Barcelona gera á þeim markaði."

„Við eigum þetta frábæra vörumerki í heimi knattspyrnunnar en kunnum ekki að nota það til að fá þann pening sem við þurfum til að byggja upp liðið og kaupa frábæra leikmenn."

„Rick þarf að segja starfi sínu lausu. Hann hefur gefið allt sitt í þetta en það er bara kominn tími á breytingar. Maður verður að geta starfað með framkvæmdarstjóranum sínum en Rick hefur sýnt að það er ekki hægt."

Viðtalið sem birtist á heimasíðu Sky er rúmlega fimm mínútna langt og má sjá hér. Þar ræðir hann einnig um aðkomu sína að Jürgen Klinsmann-málinu en Benitez hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því máli að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×