Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárkúgun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að kúga samtals 130 þúsund krónur út úr þremur mönnum.

Samkvæmt ákæru hótaði hann mönnunum að birta nöfn þeirra opinberlega og myndir af nöktum kynfærum þeirra á vefsíðu og saka þá um að vera barnaníðinga. Myndirnar höfðu mennirnir þrír tekið sjálfir og sent í netsamskiptum til mannsins.

Hinn ákærði komst í samband við mennina á netinu og þóttist vera unglingsstúlka. Sagði hann við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann hefði með þessu ætlað að reyna að opinbera barnaníðinga á Netinu. Fékk hann þremenningana til þess að taka mynd af kynfærum sínum og senda sér. Í framhaldinu hafði hann samband við þá og sagðist myndu setja myndirnar á netið en mennirnir greiddu honum fé fyrir að gera það ekki.

Taldi dómurinn það engu máli skipta hvort hann hefði farið fram á féð eða ekki. Hann hefði gerst sekur um fjárkúgun.

Kona var einnig ákærð í málinu fyrir að hafa tekið á móti fjármunum inn á reikning sinn. Hún sagðist ekki hafa vitað til hvers hinn ákærði ætlaði að nota reikninginn. Gegn eindreginni neitun konunnar taldi dómurinn ekki sannað að konan ætti aðild að málinu og var hún því sýknuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×