Enski boltinn

Capello sendir út viðvörun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu. Nordic Photos / AFP

Fabio Capello segir að þeir leikmenn sem hafa ekki áhuga að spila í vináttulandsleikjum eigi ekkert erindi í enska landsliðið undir sinni stjórn.

Hann segir að þeir leikmenn sem missi af vináttu- og æfingalandsleikjum án þess að hafa gilda ástæðu fyrir því hafi ekki nægilega mikla ástríðu til að spila fyrir enska landsliðið.

„Þá hljóta þeir að vera hrifnari af því að fara í frí heldur en að klæðast ensku landsliðstreyjunni," sagði Capello.

England mætir Bandaríkjunum í vináttulandsleik í lok maí og heimsækir svo Trinídad og Tóbagó nokkrum dögum síðar.

„Þegar það kemur að þessum leikjum verða sumir leikmenn búnir að vera í fríi í eina viku. Ef leikmaður elskar ekki að spila fyrir enska landsliðið ætti hann kannski frekar að halda sér heima."

„Leikmenn verða að elska að spila fyrir hönd Englands og klæðast ensku landslðistreyjunni. Flóknara er það ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×