Erlent

Róstur og reiði í netheimum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Getty Images

Netið er verkfæri og eins og önnur verkfæri er hægt að misnota það, ályktar prófessor í heilbrigðisfræðum við St. Joseph´s-háskólann.

Þetta eru orð Söru Black en hún er í hópi sérfræðinga sem CNN leitaði til um reiðina, stjórnleysið og skortinn á ritskoðun sem einkennir suma hluta Netsins. Nú hafa jafnvel litið dagsins ljós haturssíður sem ekki eru settar til höfuðs neinu sérstöku. Þær getur fólk hreinlega heimsótt og ausið úr sér munnsöfnuði yfir Vísa-reikningnum, álagningarseðlinum, nágrannanum á efri hæðinni, nú eða bara veðrinu.

Sem dæmi um slíka síðu má nefna mybiggestcomplaint.com þar sem reitt fólk kemur saman og er reitt. Kannski er eins gott að það er þá bara þarna hugsa nú væntanlega einhverjir og vissulega er það gilt sjónarmið en talsmenn félagsvísindanna seilast lengra. Lesley Withers, prófessor í fjölmiðlafræði við Central Michigan-háskólann segir að áður hafi menn þó þurft að ábyrgjast það sem þeir rituðu en nú sé öldin önnur. Nafnleysið gerir höfundana ábyrgðarlausa og fjarlægir um leið hömlurnar í málflutningi þeirra.

Prófessor í sálfræði við Háskólann í Texas segir reiði oft fela í sér tilraun til að ná stjórn á aðstæðum þegar sú stjórn sé ekki fyrir hendi. Afleiðingarnar geti svo verið skelfilegri en margan grunar og næg eru dæmin um morð, sjálfsmorð og aðra firringu - meira að segja innan marka sýndarveruleikans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×