Innlent

Býst við að 300 fái störf við uppbyggingu í Straumsvík

MYND/GVA

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra býst við að fjölmargir verkfræðingar og um 300 iðnaðarmenn fái störf við stækkun álversins í Straumsvík. Þá gerir hann sér vonir um að 1500-2000 störf verði til með uppbyggingu álvers í Helguvík. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.

Eygló gerði olíuvinnsludrauma ráðherrans að umræðuefni en benti á að olíuvinnsla væri fjarlægur draumur. Spurði hún ráðherra hvað hann hygðist gera til þess að hvetja iðnaðarmenn frá því að halda úr landi við núverandi aðstæður.

Össur Skarphéðinsson sagði í svari sínu að hann vænti þess að gerður yrði samningur um endurnýjun á álverinu í Straumsvík. Þar myndu fjölmargir verkfræðingar og iðnaðarmenn fá vinnu. Þá væru upp áætlanir um stóriðju í Helguvík. Ekki hefði verið samið um hversu stórt verkið yrði en hann teldi að það þyrfti 1500-2000 manns til starfa á þeim tíma sem mestur skortur yrði á störfum.

Enn fremur sagði Össur að þegar aðgangur að lánum yrði betri yrði hægt að ráðast í orkuvinnslu á Norðurlandi og þá orku yrði hugsanlega hægt að nota til mengunarlausrar stóriðju. Þá benti hann á samningur hefði verið gerður við atvinnuleysistryggingasjóð um að sprotafyrirtæki gætu ráðið til sín fólk úr hópi atvinnulausra og fengju þá greiðslur úr sjóðnum.

Enn fremur boðaði ráðherrann sókn í ferðaþjónustu og uppbyggingu kvikmyndavers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×