Innlent

Mörg dæmi um ótrúlegt launamisrétti innan bankanna

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Fimm þingmenn úr Framsóknarflokknum, Vinstri - grænum og Samfylkingunni hafa lagt fram tillögu að þingsályktun þar sem lagt er til að gerð verði úttekt á því með hvaða hætti staðið var að stöðuveitingum og launakjörum í nýju ríkisbönkunum þremur. Enn fremur hvernig ákvæða jafnréttislaga og ákvæða í stjórnarsáttmála varðandi jafnræði kynjanna um stöðuveitingar og launakjör hafi verið gætt.

Í greinargerð með þingslályktunartillögunni kemur fram að undanfarið hafi borist fregnir af því að konur virðist hafa borið verulega skarðan hlut frá borði í stjórnunarstöðum og launakjörum innan bankanna á grundvelli launaleyndar. Samkvæmt lauslegri könnun virðist hlutur kvenna í einum af nýju ríkisbönkunum vera enn rýrari en áður.

Vísað er meðal annars til bréfs Jafnréttisstofu til þingflokksformanna þar sem fram komi að stofunni hafi borist mörg dæmi um ótrúlegt launamisrétti sem viðgengist hafi í nafni launaleyndar innan bankanna þriggja og dótturfyrirtækja þeirra sem nú eru komin í ríkiseigu. ,,Dæmi eru um allt að 100% launamun karls og konu sem unnu hlið við hlið í sama starfi. Þá einkenndist skipulag bankanna af miklum kynjahalla þar sem karlar voru í öllum helstu stjórnunarstöðum. Launakannanir sem gerðar voru á launum í fjármálageiranum sýndu fram á verulegan kynbundinn launamun," segir í bréfi Jafnréttisstofu.

Tillöguhöfundarnir leggja til að gerð verði úttekt á stöðu kynjanna fyrir og eftir yfirtöku bankanna og upplýsingarnar verði nýttar til að tryggja stefnumið ríkisstjórnarinnar um að leiðrétta kynbundinn launamun og tryggja jafna stöðu kvenna og karla í stjórnunarstöðum á vegum ríkisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×