Íslenski boltinn

Fjalar: Eigum enn mikið inni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leifur Garðarsson og lærisveinar hans taka á móti Þrótti í kvöld. Fylkir hefur níu stig en Þróttur er með fimm.
Leifur Garðarsson og lærisveinar hans taka á móti Þrótti í kvöld. Fylkir hefur níu stig en Þróttur er með fimm.

Það verður einn leikur í Landsbankadeild karla í kvöld þegar Fylkir tekur á móti Þrótti. Í marki Fylkis stendur Fjalar Þorgeirsson en hann lék um langt skeið með Þrótti og hlakkar til leiksins í kvöld.

„Ég er að fara að mæta mínu gamla liði en það er kannski ekki hægt að segja að ég sé að fara að mæta fyrrum félögum mínum. Það eru bara svona þrír þarna í dag sem ég spilaði með. Annars er þetta bara eins og að mæta hverjum öðrum leikmönnum deildarinnar," sagði Fjalar við Vísi.

„En ég hef náttúrulega tilfinningar til félagsins og þekki fullt af fólki í stúkunni. Þetta verður því ekki alveg eins og hver annar leikur," sagði Fjalar. Fylkismenn hafa unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa byrjað mótið á tveimur tapleikjum. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um skýringarnar á slakri byrjun en hver er skýring Fjalars?

„Fyrsti leikurinn gegn Fram var bara algjört slys. Þetta er eitthvað sem öll lið lenda í. Svo mættum við Keflavík í erfiðum útileik þar sem þeir höfðu betur. Við vorum samt góðir síðustu tuttugu mínúturnar og það var veganæsti sem við gátum tekið með í næsta leik," sagði Fjalar.

„Við lékum síðan frábærlega gegn Val og sá sigur kom með mikið sjálfstraust í hópinn. Við náðum ekki að fylgja spilamennskunni eftir í leikinn gegn HK en vorum með heppnina með okkur. Svo mættum við ÍA við erfiðar aðstæður í baráttuleik. Við vildum sigurinn meira að mínu mati og unnum leikinn á því."

„Svo ég tel að við eigum mikið inni hvað varðar spilamennskuna. Við getum spilað mun betur," sagði Fjalar. Landsbankadeildin hefur verið fjörug það sem af er og mikið af óvæntum úrslitum. Mörkunum hefur rignt inn og er Fjalar sammála því að deildin sé skemmtilegri en áður.

„Það er svakaleg stemning yfir þessu. Umfjöllunin er meiri en nokkru sinni og maður getur ekki kveikt á sjónvarpinu og horft á leik án þess að fá 5-6 mörk. Þetta hefur verið skemmtilegt mót, ég veit ekki hvort það sé vegna þess að það eru komin fleiri lið en það getur spilað inní," sagði Fjalar.

Leikur Fylkis og Þróttar hefst klukkan 20:00 í kvöld á Árbæjarvelli. Leikurinn verður beint á Stöð 2 Sport og þá verður bein textalýsing á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×